Erlent

Kom upp úr gangstéttinni og kastaði reyksprengjum inn í veitingastaði

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá manninn koma upp um opið í gangstéttinni og kasta reyksprengju að grunlausum gestum.
Hér má sjá manninn koma upp um opið í gangstéttinni og kasta reyksprengju að grunlausum gestum.
Lögreglan í New York leitar ljóshærðs manns um tvítugt sem kom upp um lúgu í gangstétt í borginni og kastaði reyksprengju inn á tvo veitingastaði. Lúgan er fyrir neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar og er talið að maðurinn hafi ferðast neðanjarðar að veitingastöðunum. Hann náðist á myndband og má sjá glefsur úr myndbandinu hér í fréttinni.



Myndbönd náðust einnig af gestum veitingasaðanna, þar sem þeir reyndu að flýja reykinn. Leikkonan Rose McGowan var meðal gesta annars veitingastaðarins og hún tísti um málið, eins og sjá má hér að neðan, auk tísts frá fréttakonunni Brynn Gingras, sem birti mynd af lúgunni sem maðurinn opnaði til að komast að veitingastöðunum.

Brad Garret, fyrrum alríkislögreglumaður, segir í samtali við fréttastofu ABC í Bandaríkjunum að málið sýni hversu berskjaldaðir borgarar í New York geti verið. Undirgöng í neðanjarðarlestarkerfinu séu hundruðir kílómetra á lengd. „Fyrsta sem lögreglan í New York þarf að gera að er að skoða neðanjarðarlestarkerfið. Hvernig komst maðurinn þarna inn? Hvernig gat hann ferðast þarna um óséður?“



Lögregluyfirvöld í New York vildu ekki segja til hvort að viðbúnaðarstig yrði aukið í undirgöngum borgarinnar eftir þessar reyksprengjuárásir. Eigendur veitingastaðanna sem sprengjuárásin var gerð á neituðu einnig að tjá sig við fréttastofu ABC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×