Erlent

Atkvæðagreiðsla um sjálfstæði Katalóníu mögulega blásin af

Bjarki Ármannsson skrifar
Undanfarnar vikur hafa hundruð þúsunda mótmælt á götum úti í Katalóníu og krafist þess að atkvæðagreiðslan fari fram.
Undanfarnar vikur hafa hundruð þúsunda mótmælt á götum úti í Katalóníu og krafist þess að atkvæðagreiðslan fari fram. Vísir/AFP
Spænskir fjölmiðlar segja að héraðsstjórn Katalóníu ætli að hætta við fyrirhugaða atkvæðagreiðslu um sjálfstæði héraðsins sem átti að fara fram í byrjun nóvember. Talsmaður Artur Mas, forseta Katalóníu, hefur boðað blaðamannafund í fyrramálið.

BBC greinir frá. Ríkisstjórn Spánar hefur lengi beint sér gegn því að atkvæðagreiðslan verði haldin og sagt slíka kosningu brjóta í bága við stjórnarskrá landsins. Ríkisstjórnin vill alls ekki missa Katalóníu, eitt ríkasta hérað landsins, en aukinn vilji er meðal Katalóníubúa fyrir því að lýsa yfir sjálfstæði í kjölfar efnahagshrunsins á Spáni.

Þann 19. september síðastliðinn samþykkti Katalóníuþing, með 106 atkvæðum gegn 28, að Mas yrði veitt umboð til þess að halda atkvæðagreiðsluna. En Joan Herrera, fulltrúi sjálfstæðissinna, segir í kvöld að héraðsstjórnin hafi komist að því að ekki sé mögulegt að atkvæðagreiðslan fari fram og segja spænskir miðlar að Mas leiti nú annarra ráða til að ráðfæra sig við almenning.

Skoðanakannanir benda til þess að meirihluti Katalóníumanna vilji fá að kjósa um sjálfstæði sitt en að erfitt sé að spá um hvernig slík kosning færi. Undanfarnar vikur hafa hundruð þúsunda mótmælt á götum úti í Katalóníu og krafist þess að atkvæðagreiðslan fari fram.


Tengdar fréttir

Sjálfstæði ekki í samræmi við stjórnarskrá

Stjórnvöld á Spáni telja að fyrirhuguð atkvæðagreiðsla um sjálfstæði Katalóníu sé ekki í samræmi við stjórnarskrá landsins og ætla að vísa málinu til stjórnlagadómstóls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×