Erlent

Lögregla lokar stórum hluta miðborgar Stokkhólms vegna rána

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla er búin að loka af stórum hluta miðborgar sænsku höfuðborgarinnar.
Lögregla er búin að loka af stórum hluta miðborgar sænsku höfuðborgarinnar. Vísir/AFP
Sprengjuhótanir hafa borist gegn tveimur bönkum í tengslum við rán í miðborg Stokkhólms. Lögregla er búin að loka af stórum hluta miðborgar sænsku höfuðborgarinnar.

„Við bíðum nú sprengjusérfræðinga sem ætla að rannsaka pakkana sem grunur leikur á að séu sprengjur,“ segir Eva Nilsson, talsmaður lögreglunnar í samtali við Dagens Nyheter.

Lögreglu barst fyrst tilkynning rétt eftir klukkan 8:30 í morgun frá starfsfólki Handelsbanken við Östermalmstorg þar sem maður hafði komið inn í bankann og krafist peninga. Þegar maðurinn yfirgaf bankann skildi hann eftir pakka sem starfsfólk óttaðist vera sprengja og hljóp út úr bankanum.

„Fimm mínútum síðar barst tilkynning um að maður hafði komið inn á aðalskrifstofu Nordea við Smålandsgatan, skilið eftir pakka, kallað „sprengjuhótun“ og svo hlaupið í burtu,“ segir Nilsson.

Um korteri síðar barst svo þriðja tilkynningin, í þetta skiptið frá skrifstofu sem verslar með gjaldeyri á Holländaregatan, þar sem maður hafði rænt skrifstofuna og skilið eftir pakka sem starfsfólk óttaðist að væri sprengja.

Lögregla hefur beint þeim orðum til almennings í nágrenninu að halda sig fjarri gluggum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×