Erlent

Merkur fornleifafundur frá víkingatímum í Skotlandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Nokkrir munanna sem fundust í Skotlandi á dögunum.
Nokkrir munanna sem fundust í Skotlandi á dögunum. Mynd/Treasure Trove
Merkar fornminjar frá víkingatímanum hafa fundist í Dumfries og Galloway í Skotlandi. Meira en hundrað hlutir, þar á meðal skartgripir úr gulli, armbönd og ýmsir munir úr silfri. Talið er að gripirnir séu frá miðri 9. og 10. öld.  Frá fundinum er greint á vef Guardian.

Að sögn Stuart Campbell, forstöðumanns skosku fornleifastofnunarinnar, er um mjög merkan fund að ræða. Það var reyndar ekki fornleifafræðingur sem fann gripina heldur miðaldra kaupsýslumaður sem hafði leyfi til að leita á kirkjujörðinni þar sem munirnir fundust.

Campbell sagði fundinn afar merkilegan, ekki síst vegna þess munirnir koma frá mismunandi löndum og menningarheimum. Hann segir að svo virðist sem um geymslustað hafi verið að ræða, nokkurs konar öryggishólf sem enginn hafi síðan vitjað.

Cambell sagði fundinn jafnframt geta varpað nýju ljósi á það hvernig Skotar sjá samband sitt við víkinga.

„Við höfum þessa hugmynd um að víkingar hafi verið útlendingar sem hafi gert innrásir í Skotland, en þetta virðist hafa verið svæði þar sem víkingar lifðu og áttu í viðskiptum. Þarna bjuggu norrænir menn,“ sagði Campbell við Guardian.

Hér að neðan má sjá færslu af Facebook-síðu skosku fornleifastofnunarinnar og fleiri myndir af mununum sem fundust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×