Erlent

Fundu þrjú dáin börn falin í skápum

Samúel Karl Ólason skrifar
Erika Murray hefur verið ákærð vegna dauða þriggja barna sinna og aðstæðna fjögurra barna hennar.
Erika Murray hefur verið ákærð vegna dauða þriggja barna sinna og aðstæðna fjögurra barna hennar. Vísir/AP
Lögreglan í Massachusetts í Bandaríkjunum fann lík þriggja ungbarna falin í skápum á heimili Eriku Murray. Tvö þeirra fundust í fataskápum tveggja annarra barna. Móðirinn fór fyrir dómara í dag og hefur meðal annars verið ákærð fyrir að leyna dauða barnanna.

AP fréttaveitan segir frá því að tíu ára sonu Murray hafi beðið nágranna um að hjálpa sér vegna þess að fimm mánaða gömul systir hans hætti ekki að gráta. Nágranninn fann barnið og annað barn, þriggja ára stúlku, í sitt hvoru herberginu og greinilegt var að þau höfðu verið þar lengi afskiptalaus. Ekki hafði verið skipt á ungabarninu í langan tíma og eldra barnið var einnig mjög skítugt.

Börnin höfðu aldrei farið út úr húsinu og voru mjög vannærð. Barnaverndaryfirvöld færðu fjögur börn af heimilinu á aldrinum fimm mánaða til 13 ára.

Eftir að lögreglan hafði rætt við tvö elstu börn Murray fengu þeir leitarheimild frá dómara. Við leit á heimilinu fannst beinagrind ungabarns falin í bakpoka inn í skáp. Lík tveggja annarra ungabarna fundust í öðrum skáp þar sem elstu börnin sváfu.

Raymond Rivera, kærasti Murray, sem bjó á heimilinu hefur ekki verið ákærður vegna málsins, en hann hefur þó verið ákærður vegna kannabisræktunar í kjallara hússins. Hún segir hann vera faðir allra barnanna.

Lögfræðingur Murray segir það óskiljanlegt að hann hafi búið á heimili þeirra og ekki vitað af börnunum. Hann sagði þó að það væri einnig óskiljanlegt að hann hefði ekki gert neitt, hafi hann vitað af börnunum og ástandi þeirra.

Heimili fjölskyldunnar hefur verið lýst óíbúðarhæft og verður rifið seinna í mánuðinum. Þar fundust „haugar“ af óhreinum bleyjum, rusli og dýraleifum, eins og embættismenn orðuðu það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×