Erlent

Fjöldi manns handtekinn í Brasilíu vegna fóstureyðinga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mótmæli hafa verið í Brasilíu vegna strangrar löggjafar um fóstureyðingar í landinu.
Mótmæli hafa verið í Brasilíu vegna strangrar löggjafar um fóstureyðingar í landinu. Vísir/Getty
Lögreglan í Brasilíu hefur handtekið 47 manns í kjölfar þess að tvær brasilískar konur dóu eftir að hafa farið í fóstureyðingu. Konurnar fóru á ólöglegar meðferðarstofur fyrir fóstureyðingar en talið er að um skipulagða starfsemi sé að ræða. BBC greinir frá.

Lögreglan telur að um 2.000 manns hafi nýtt sér starfsemi meðferðarstofanna og hafi greitt rúma 3.000 dollara fyrir hverja aðgerð. Lögreglan segir stofurnar hafa verið óheilsusamlegar þar sem líf og heilsu sjúklinga hafi verið stofnað í hættu.

Fóstureyðingar eru ekki leyfðar í Brasilíu nema í tilfellum þar sem kona verður ólétt í kjölfar nauðgunar, fóstrið er vanskapað eða líf móðurinnar er í hættu.

Konur og stúlkur sem fara í ólöglega fóstureyðingu í Brasilíu geta átt fangelsisdóm yfir höfði sér. Mannréttindasamtök hafa ítrekað kallað eftir því að fóstureyðingar verði leyfðar í fleiri tilfellum en nú er gert og hafa mótmæli verið í Brasilíu vegna dauða kvennanna tveggja og strangrar löggjafar.

Nokkur lönd Rómönsku Ameríku banna fóstureyðingar í öllum tilfellum, en þar á meðal er eitt þróaðasta ríki álfunnar, Chile.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×