Erlent

43 stúdentar enn týndir í Mexíkó

Samúel Karl Ólason skrifar
Margir hafa mótmælt spillingu yfirvalda í Suður-Mexíkó síðustu daga.
Margir hafa mótmælt spillingu yfirvalda í Suður-Mexíkó síðustu daga. Vísir/AP
Tuttugu og átta lík fundust í fjöldagröf í Suður-Mexíkó á dögunum. Yfirvöld hafa staðfest að ekki sé um að ræða jarðneskar leifar stúdentanna fjörutíu og þriggja sem hurfu sporlaust 27.september eftir að lögregla réðst að þeim. Dómsmálaráðherra Mexíkó sagði í gær að enn lægi ekkert fyrir um hvað hafi orðið um nemendurna. 

Fleiri lögreglumenn hafa verið handteknir í héraðinu Guerro vegna tengsla við skipulögð glæpasamtök. Fjöldi fólks mótmælti í höfuðborg héraðsins í gær vegna hvarfs stúdentanna og brenndu opinberar byggingar samkvæmt AP fréttaveitunni.

Leiðtogi glæpasamtakanna Guerros Unidos, er sagður hafa framið sjálfsmorð í dag þegar alríkislögreglumenn og hermenn reyndu að handsama hann. Yfirvöld grunar að samtökin hafi unnið með lögreglu um langt skeið og lögreglumenn hafi hjálpað þeim að ræna stúdentunum.

Lögreglumenn skutu sex stúdenta og fóru á brott með 43 til viðbótar. Einn meðlimur Guerros Unidos segir að sér hafi verið skipað að myrða 17 þeirra. Líkin sem fundust í fjöldagröf nýlega voru þó líklega grafin fyrir einhverjum mánuðum síðan.


Tengdar fréttir

Fjöldagröf fannst í Mexíkó

Talið er að þar sé að finna lík 43 nemenda sem hurfu síðustu 27. september síðastliðinn eftir að lögregla réðist að þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×