Erlent

Herða reglur um merkingar á tóbaki

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir
Nær allar merkingar á sígarettupökkum á Indlandi verða bannaðar frá og með 1. apríl næstkomandi. Viðvaranir sem segja til um skaðsemi reykinga munu þekja um 85 prósent af hverjum sígarettupakka en þau 15 prósent sem eftir standa verða til vörumerkinga. Er þetta meðal annars gert til að draga úr áhrifum markaðssetningar tóbaksfyrirtækjanna.

„Tóbak þýðir bara eitt. Dauði,“ sagði Harsh Vardhan heilbrigðisráðherra Indlands í gær en hann er sá sem mælir fyrir lögunum.

Um 110 milljón manns á Indlandi reykja en talið er að nærri milljón manns láti lífið af völdum reykinga á ári hverju. Vardhan segir þessar reglur því mikilvægar í baráttunni við reykingar.

Þegar hafa Ástralía og Nýja-Sjáland bannað alfarið vörumerkingar á sígarettupökkum en Írland verður að öllum líkindum fyrsta Evrópuþjóðin til að banna slíkar merkingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×