Erlent

Mótorhjólagengi berst gegn liðsmönnum IS

Atli Ísleifsson skrifar
Hollendingurinn „Ron“ með kúrdískum hermanni.
Hollendingurinn „Ron“ með kúrdískum hermanni. Mynd/Twitter
Sífellt fleiri bætast í hóp þeirra sem berjast gegn uppgangi liðsmanna IS í Írak og Sýrlandi. Nýjustu óvinir IS-samtakanna eru liðsmenn úr hollenska mótorhjólagenginu No Surrender Banditos, sem hafa lagt leið sína til íröksku borgarinnar Mosul til að styðja við bakið á hersveitum Kúrda.

Klaas Otto, leiðtogi gengisins, segir þrjá meðlimi No Surrender Banditos hafa farið til Íraks, en í frétt Independent segir að mennirnir komi frá hollensku borgunum Amsterdam, Rotterdam og Breda.

Á mynd sem birt var á kúrdísk-hollenskri Twittersíðu sést einn af meðlimum gengisins vopnaður Kalashnikov-riffli með kúrdískan hermann sér við hlið.

Wim de Bruin, talsmaður ríkissaksóknaraembættisins í Hollandi, segir í samtali við AFP að meðlimir mótorhjólagengisins megi berjast við hlið Kúrdanna gegn IS, svo fremi sem þeir séu ekki aðilar að árásum gegn Hollandi. „Áður var refsivert að ganga til liðs við erlendan her, en nú er það ekki lengur bannað. Maður má bara ekki vera í stríði gegn Hollandi.“

Samkvæmt hollenskum lögum er hins vegar refsivert að ganga til liðs við hryðjuverkasamtök á borð við IS. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×