Innlent

Reynt að tæla stúlku upp í bíl í Vesturbæ

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gva
Karlmaður reyndi síðastliðinn miðvikudag að lokka sjö ára stúlku upp í bíl sinn við Öldugötu.  Að sögn foreldra stúlkunnar, sem vöktu athygli á málinu á Facebook, brást stúlkan rétt við og gerði viðvart líkt og henni hefur verið kennt að gera. Hún sé þó enn verulega óttaslegin.

Samkvæmt lýsingum barnsins er karlmaðurinn 35-45 ára með ljósan augnlit á svartri lúxusbifreið, líklega Range Rover.

Undanfarið hafa ítrekað borist fréttir af því að reynt sé að tæla börn upp í bíla hjá ókunnugum, meðal annars með því að bjóða þeim sælgæti. 

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur sagði í samtali við Fréttablaðið að oft sé það hugmynd fólks um þá sem reyna að tæla börn vera þá að þetta séu „gamlir skítugir“ karlar en svo sé ekki raunin. Oftast nær séu þetta ósköp venjulegir menn sem jafnvel eiga sjálfir fjölskyldu.

Málið er í rannsókn hjá lögreglu.

Lögregla segir að mikilvægt sé að börn tilkynni svona atvik og leggi á minnið því sem þau verði áskynja. Því sé mikilvægt að foreldrar skrái niður það sem þau hafi að segja. Sem fyrr segir er málið komið á borð lögreglu, en hafi fólk upplýsingar um atvikið er því bent á að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.




Tengdar fréttir

Reynt að tæla börn upp í bíla í Vesturbænum

Í bréfi sem sent hefur verið foreldrum í Vesturbæjarskóla kemur fram að foreldrar hafi sett sig í samband við skólann og lýst áhyggjum af því að ókunnugir menn hafi ávarpað börn þeirra og boðið þeim bílfar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×