Eysteinn segir það alltaf spennandi að fylgjast með rúllunni svokallaðri þegar fiskurinn kemur í bátinn. „Þegar þorskurinn snýr sér á hvolf þá sér maður hvítu hliðina. Þá sér maður hvort að það er stór eða lítill fiskur að koma upp. Ég sá í þessu tilviki að það var eitthvað stórt að koma upp þannig að ég var tilbúinn að gogga í hann og koma honum inn fyrir borðstokkinn. Það þurfti náttúrulega heljarinnar átak að ná honum inn, þetta er gríðarlega þungt.“
Sjómaðurinn káti er í skýjunum með fenginn en fiskurinn verður verkaður í fiskverkuninni Þorbjörn í Grindavík. Farið verður með hann eins og alla aðra fiska sem áhöfnin veiðir, hann verður ekkert uppstoppaður eða slíkt. „Bara settur á matardiskinn.“
Mikill heiður fylgir því að fá svo stóran fisk að sögn Eysteins. „Ég er rosalega stoltur. Þetta er búið að bjarga sjómannsferlinum. Ég hef fengið hákarl á línuna og lúðu en þessi stóri þorskur sló öll met.“
Norskur veiðimaður komst í fréttirnar fyrir tveimur árum þegar hann veiddi þorsk sem mældist 41,5 kg.
