Erlent

IS-liðar að ná sýrlenskri borg við tyrknesku landamærin

Atli Ísleifsson skrifar
Rúmlega 160 þúsund Sýrlendingar, aðallega Kúrdar, hafa flúið borgina Kobane.
Rúmlega 160 þúsund Sýrlendingar, aðallega Kúrdar, hafa flúið borgina Kobane. Vísir/AFP
Liðsmenn IS hafa nú haldið inn í sýrlensku borgina Kobane sem stendur við landamæri Sýrlands og Tyrklands. Átök hafa staðið yfir milli sveita IS og sýrlenskra Kúrda sem reyna nú að verja borgina.

Liðsmenn IS hafa sótt inn í austurhluta borgarinnar og komið svörtum fánum sínum fyrir hæðum og háum byggingum.  Í frétt BBC segir að fleiri hundruð manns hafi lagt á flótta í dag og reyna nú að komast yfir tyrknesku landamærin.

IS-liðar hafa setið um borgina Kobane í um þrjár vikur, en takist þeim að ná tökum á borginni munu samtökin ráða yfir stórum órofnum hluta landamæranna milli Sýrlands og Tyrklands.

Rúmlega 160 þúsund Sýrlendingar, aðallega Kúrdar, hafa flúið borgina síðustu daga og vikur.

Embættismaður í Kobane greindi fyrr í dag frá því að Kobane myndi örugglega falla í hendur IS-liða áður en langt um liði. Sagði hann liðsmenn IS hafa náð tökum á Mistenur, hernaðarlega mikilvæga hæð fyrir ofan borgina. Þá sagði hann mikil átök hafa staðið í borginni að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×