Erlent

Evrópuþingið hafnar fulltrúa Ungverja

Atli Ísleifsson skrifar
Tibor Navracsics verður ekki mennta- og menningarmálastjóri ESB næstu árin.
Tibor Navracsics verður ekki mennta- og menningarmálastjóri ESB næstu árin. Vísir/AFP
Evrópuþingið hefur hafnað því að Ungverjinn Tibor Navracsics taki við stöðu mennta- og menningarmálastjóra Evrópusambandsins. Ekki er útilokað að Navracsics taki við öðrum málaflokki í nýju framkvæmdastjórninni.

Evrópuþingið hefur yfirheyrt tilvonandi framkvæmdastjóra í framkvæmdastjórn Jean-Claude Juncker síðustu daga. Navracsics er sá fyrsti sem þingið hafnar í þessari lotu, en slíkt hefur þó áður gerst í aðdraganda þess að ný framkvæmdastjórn tekur við.

Navracsics hefur átt sæti í ríkisstjórn Viktor Orban sem hefur verið sökuð um að grafa undan ýmsum réttindum almennings í Ungverjalandi. Fjórtán fulltrúar mennta- og menningarmálanefndar þingsins kusu gegn Navracsics, en tólf með.

Juncker gæti því þurft að flytja málaflokka á milli tilvonandi framkvæmdastjóra. Evrópuþingið þarf að samþykkja framkvæmdastjórnina í heild sinni áður en hún tekur við og mun þingið greiða atkvæði þann 22. október næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×