Erlent

Ebólusmitið á Spáni til rannsóknar

Vísir/AFP
Rannsókn er nú hafin á því hvernig það gat gerst að hjúkrunarfræðingur á Spáni smitaðist af Ebólu. Hún er fyrsti sjúklingurinn sem smitast af hinum banvæna sjúkdómi utan Vestur-Afríku.



Konan hafði annast tvo spænska trúboða sem voru fluttir með sjúkraflugi frá Afríku til höfuðborgarinnar Madríd þar sem þeir fengu bestu mögulegu ummönunun. Þrátt fyrir það tókst ekki að bjarga lífi þeirra og nú er komið í ljós að hjúkrunarfræðingurinn hefur smitast af þeim.

Ástand konunnar er sagt í jafnvægi og náið er fylgst með vinnufélögumum þeirra, skyldu fleiri hafa smitast. Um 3400 manns hafa nú látist eftir að ebólufaraldurinn braust út fyrir nokkrum mánuðum og er ástandið langverst í Líberíu, Síerra Leóne og Gíneu. Norsk hjúkrunarkona smitaðist í Afríku á dögunum og er verið að flytja hana heim til Noregs en hún er fyrsti Norðurlandabúinn sem smitast. Búist er við að lent verði með konuna í Osló um hádegisbil í dag.

Obama Bandaríkjaforseti tilkynnti síðan um það í gærkvöldi að hert verði á öryggisgæslu á flugvöllum í Bandaríkjunum til þess að reyna að koma í veg fyrir að Ebólusmitað fólk komi inn í landið en á dögunum uppgötvaðist að maður sem ferðast hafði frá Líberíu til Dallas reyndist smitaður af sjúkdómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×