Innlent

Mikill meirihluti á móti úthlutunum lóða til trúfélaga

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Hart hefur verið deilt um úthlutun lóða til trúfélaga undanfarna mánuði. Kirkjur eru til að mynda byggðar á ókeypis lóðum.
Hart hefur verið deilt um úthlutun lóða til trúfélaga undanfarna mánuði. Kirkjur eru til að mynda byggðar á ókeypis lóðum. Vísir / Vilhelm
Flestir eru andvígir því að trúfélög fái úthlutað ókeypis lóðum undir trúbyggingar sínar. Fleiri eru á þessari skoðun nú en í september á síðasta ári. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar MMR sem birt var í dag. Tæplega 74 prósent þeirra sem gáfu upp afstöðu sögðust andvígir slíkum úthlutunum.

Í niðurstöðunum kemur fram að 8,1 prósent eru ýmist hlynntir eða mjög hlynntir úthlutunum lóða til trúfélaga. Rúmlega átján prósent sögðust hvorki vera fylgjandi né andvígir úthlutunum.

Mestu tilfærslurnar eru innan hvorrar fylkingar fyrir sig. Aukning er í hópi þeirra sem segjast mjög andvígir á meðan þeim sem eru frekar andvígir fækkar. Að sama skapi fjölgar í hópi þeirra sem eru mjög fylgjandi en þeim sem eru frekar fylgjandi fækkar.

Stuðningsmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins eru harðastir í andstöðu sinni gagnvart úthlutun lóða. Samfylkingarfólk er hinsvegar jákvæðast til þess en 21 prósent stuðningsmanna flokksins vilja almennt úthluta lóðum frítt til trúfélaga. Til samanburðar voru aðeins 4,1 prósent stuðningsmanna Framsóknarflokksins fylgjandi úthlutunum.

Lítill munur er á afstöðu fólks eftir öðrum félagslegum þáttum, svo sem tekjum og aldri. Konur voru þó ekki jafn harðar í afstöðu sinni gegn úthlutunum og karlar en 9,6 prósent kvenna sögðust fylgjandi úthlutunum.

Könnunin var framkvæmd dagana 20. til 25. september og var svarfjöldi 1436 einstaklingar, 18 ára og eldri. Spurt var almennt séð hvort fólk væri fylgjandi eða andvígt því að trúfélög fái úthlutað ókeypis lóðum til að byggja trúarbyggingar hjá sveitafélögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×