Innlent

Þrjú lömb illa farin eftir dýrbít

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Eins og sjá má var kindin ansi illa farin.
Eins og sjá má var kindin ansi illa farin. mynd/dýraspítalinn víðidal
„Þetta er mjög alvarlegt mál. Maður veit ekki hvað svona hundur gerir næst. Fer hann í smærri hunda, börn eða fólk?,“ segir Arndís Björg Bjargmundsdóttir, eigandi lambs, sem fannst sært á túni við Langavatn síðastliðinn sunnudag. Tvö lömb fundust þar dauð og telur Arndís það hafa verið af völdum dýrbíts.

„Dýralæknirinn heldur að þetta hafi verið hundur, líklega stór hundur og sagði að þarna væru stungugöt eins og eftir tennur,“ segir Arndís.

Arndís segir svæðið þarna í kring vinsælt útivistarsvæði og þar sé fólk oft að sjá. Kindurnar eru inni í læstri girðingu en segir hún lítið mál fyrir hunda að smeygja sér þar í gegn.

„Þetta er rétt hjá Grafarholti og vinsælt göngusvæði og því líklegt að hundar séu með í för,“ segir Arndís. 

„Núna reynum við bara að halda henni á lífi. Það þurfti að sauma hana á hálsi og hefta hana saman. Hún fékk skammt af penisillíni og vítamínum og þurfum að gefa henni næstu fimm daga. Hún á mjög erfitt með gang og illa farin og vonum að hún lifi þetta af.“

Arndís mun fara til lögreglu á morgun og gefa þar skýrslu. Hún biður alla þá sem telja sig vita eitthvað um málið að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×