Erlent

Hundi smituðu konunnar lógað

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Heilbrigðisstarfsmenn krefjast afsagnar Ana Mato heilbrigðisráðherra.
Heilbrigðisstarfsmenn krefjast afsagnar Ana Mato heilbrigðisráðherra. NordicPhotos/AFP
Borgaryfirvöld í Madríd á Spáni hafa ákveðið að lóga hundi spænsku hjúkrunarkonunnar sem smitaðist af ebólu. Þau sögðu í yfirlýsingu í dag að sú þekking sem fyrir liggur bendi til þess að veiran gæti smitast til manna með hundinum. Eftir að hundinum verður lógað verður hræið krufið.

Evrópusambandið hefur krafist upplýsinga um ferðir konunnar og skýringa á því hvernig hún gæti hafa smitast. Reiði ríkir á Spáni vegna málsins. Í dag mótmæltu 20 heilbrigðisstarfsmenn. Þeir krefjast þess að Ana Mato heilbrigðisráðherra segi af sér vegna málsins. Fullyrða þeir að þeir hafi ekki fengið nægjanlega þjálfun í að bregðast við smitum. 

Spánn er næststærsta ferðamannaland í Evrópu á eftir Frakklandi, en ferðamannaiðnaðurinn er farinn að líða fyrir ebóluna. Hlutabréf í spænskum flugfélögum og hótelkeðjum lækkuðu á markaði í dag. Associated Press segir augljóst að fjárfestar hræðist að veiran muni draga úr áhuga ferðamanna á landinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×