Erlent

Norður-Kórea viðurkennir að reka vinnubúðir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vinnubúðunum er lýst sem betrunarvist þar sem fangar takast á við vandamál sín með vinnu.
Vinnubúðunum er lýst sem betrunarvist þar sem fangar takast á við vandamál sín með vinnu. Vísir/Getty
Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa í fyrsta skipti viðurkennt opinberlega tilvist vinnubúða í landinu en í febrúar síðastliðnum birtu Sameinuðu þjóðirnar svarta skýrslu um stöðu mannréttinda í Norður-Kóreu. Þar voru stjórnvöld meðal annars sökuð um að reka fangabúðir fyrir pólitíska fanga.

Choe Myong-nam, fulltrúi norður-kóreska utanríkisráðuneytisins, vildi ekki kannast við það á blaðamannafundi að stjórnvöld hefðu sérstakar búðir fyrir pólitíska fanga. Aftur á móti væru til staðar vinnubúðir fyrir afbrotamenn og nokkra pólitíska fanga.

Myong-nam lýsti búðunum sem betrunarvist þar sem fangarnir tækjust á við vandamál sín með vinnu, en nokkuð öruggt er talið að fangabúðir þar sem pólitískar fangar fá mun harðari meðferð séu þar að auki til staðar í Norður-Kóreu.

Engu að síður er litið svo á að yfirlýsing norður-kóreska stjórnvalda á tilvist vinnubúða í betrunarskyni sé mikilvægt skref í átt að því að þau fari að ræða stöðu mannréttinda í landinu af fullri alvöru við alþjóðasamfélagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×