Innlent

Sóttu fasta ferðamenn

Vísir
Björgunarsveitarmenn Landsbjargar sóttu í gærkvöldi sex erlenda ferðamenn, sem sátu fastir í jepplingi á vegslóða í grennd við Laugafell, sem er inn af Skagafirði og Eyjafirði.

Þeir höfðu lent þar í krapa og aurbleytu uns þeir festu bílinn í lækjarfarvegi og óskukðu þá eftir hjálp. Leiðangurinn gekk vel og var komið með þá og jepplinginn til byggða um tíu leitið í gærkvöldi.

Vegurinn er ófær, samkvæmt heimasíðu Vegagerðarinnar, en ferðamennirnir báru því við að þeir hefðu fengið þær upplýsingar símleiðis hjá Vegagerðinni að vegurinn væri fær fjórhjóladrifnum bílum, og verður það kannað nánar í dag.

Ferðamennirnir héldu svo áfram en lofuðu að halda sig á hringveginum. Þetta var þriðja útkall björgunarsveita á tveimur sólarhringum vegna erlendra ferðamanna í vandræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×