Enski boltinn

Fer enska úrvalsdeildin í útrás?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, væri kannski til í að spila einn leik í Hollandi.
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, væri kannski til í að spila einn leik í Hollandi. Vísir/Getty
Enska úrvalsdeildin er afar vinsæl út um allan heim og næsta skref gæti verið að nýta sér þessar vinsældir og fara í útrás. Þetta er gömul hugmynd sem hefur fengið nýtt líf.

NBA-deildin og NFL-deildin í Bandaríkjunum hafa gert þetta með góðum árangri og nú hafa liðin í ensku úrvalsdeildinni áhuga á að koma með ensku úrvalsdeildina til annarra landa.

Fyrir sex árum kom upp hugmynd um að spila einn aukaleik (39. leikinn) utan Englands en sú féll í grýttan jarðveg og ekkert varð að því.

Nú eru forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar farnir að plana það að spila eina af umferðunum 38 utan Englands. Samkvæmt frétt í Daily Mirror hafa menn þar á bæ gefið sér fimm ár til að koma þessu á.

Ein af stóru hindrununum er að bæta liðunum fyrir það að missa heimaleik sem og að auðvelda hörðustu stuðningsmönnum að ferðast á leikinn.

Menn sjá gróðavon í að fara með leiki út fyrir England en 109 þúsund mættu á æfingaleik Manchester United og Real Madrid í Bandaríkjunum í sumar.

Yfirmenn ensku úrvalsdeildarinnar munu hafa þetta í huga þegar þeir selja næst sjónvarpsréttinn á ensku úrvalsdeildina. Það eru engar opinberar tillögur en samkvæmt heimildum Daily Mirror þá eru menn farnir að ræða þetta af alvöru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×