Erlent

Hleypa róttækum predikurum ekki til landsins

Samúel Karl Ólason skrifar
Tony Abbott forsætisráðherra Ástralíu.
Tony Abbott forsætisráðherra Ástralíu. Vísir/AFP
Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu, sagði frá því í morgun að hann hefði fyrirskipað aðgerðir til að koma í veg fyrir að róttækir predikarar íslam kæmust til landsins. „Það sem við viljum gera er að tryggja að þekktir menn sem predika hatur komi ekki til Ástralíu til að dreifa boðskap sínum,“ hefur Reuters eftir Abbott.

Þá vísaði Abbott til samtaka eins og Hizb ut-Tahrir sem stefna að því að halda fyrirlestur á föstudaginn gegn inngripi Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Sýrlandi. Fyrirlesturinn ber titilinn „The war to end a blessed revolution.“

„Við skulum leyfa Áströlum sem vilja segja heimskulega hluti að gera það, en það þýðir ekki að flytja til landsins fólk sem ýtir undir ofbeldi,“ sagði forstætisráðherrann í útvarpsþætti í Ástralíu í morgun. „Mér þykir miður af við höfum ekki gefið þeir rauða spjaldið fyrr, en það mun gerast og það mun gerast fljótt.“

Löggæsla Ástralíu núna er í viðbragðsstöðu vegna mögulegra árása íslamista eða ástralskra ríkisborgara sem hafa barist í Sýrlandi en eru nú komnir aftur til Ástralíu. Yfirvöld telja að allt að 160 Ástralar hafi tekið þátt í átökunum í Sýrlandi eða styðji vígahópa þar með opnum hætti. Minnst 20 eru taldir hafa barist ytra og snúið aftur til Ástralíu. Múslimar í Ástralíu segja samfélag þeirra vera skotmark hópa hægri fólks í Ástralíu og að aðgerðir lögreglu séu ósanngjarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×