Innlent

Í nálgunarbann vegna gruns um heimilisofbeldi

Jakob Bjarnar skrifar
Maðurinn sem um ræðir er grunaður um gróft heimilisofbeldi. (Myndin er sviðsett.)
Maðurinn sem um ræðir er grunaður um gróft heimilisofbeldi. (Myndin er sviðsett.)
Hæstiréttur staðfesti í dag ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, frá 25. september að maður nokkur skuli sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni í fjórar vikur, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili sitt og sambúðarkonu sinnar. Svæðið miðast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili veiti konunni eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana á annan hátt.

Maðurinn vildi ekki una þessu og áfrýjaði málinu til Hæstaréttar. Í greinargerð lögreglustjóra kemur meðal annars fram að hann liggi undir sterkum grun um að hafa miðvikudaginn 24 september 2014 ráðist á sambýliskonu sína á sameiginlegu heimili þeirra að með því að sparka og slá hana ítrekað í höfuð og líkama. Konan hafi leitað í kjölfarið á slysadeild og reyndist með áverka sem samræmast lýsingum hennar af atvikum.

Í læknisvottorði  kemur fram að konan hafi hlotið opið sár á höfði, sem hafi þurft að sauma, yfirborðsáverka á öðrum hlutum höfuðs, heilahristing, yfirborðsáverka á framarmi, mar á öxl og upphandlegg og yfirborðsáverka á brjóstkassa.

Uppfært 14:40

Athugasemd blaðamanns!

Upphafleg fyrirsögn þessarar fréttar var „Meintur heimilisboxari í nálgunarbann“. Fjölmargar athugasemdir hafa borist þar sem fólk hefur lýst því yfir að með þessari orðanotkun sé verið að gera lítið úr því máli sem til umfjöllunar er. Sú var ekki meiningin, ekki undir neinum kringumstæðum og því hefur fyrirsögninni verið breytt af tillitssemi við þá sem skilja orðið þannig -- og þakkar Vísir fyrir ábendingarnar.

Sérstök athygli er vakin á því að vegna kerfis sem Vísir er keyrður á falla allar athugasemdir við fréttir út, við það að fyrirsögn er breytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×