Erlent

Nítján látnir í mótmælum í Tyrklandi

Atli Ísleifsson skrifar
Til harðra mótmæla hefur komið í Tyrkland, meðal annars í Diyarbakir.
Til harðra mótmæla hefur komið í Tyrkland, meðal annars í Diyarbakir. Vísir/AFP
Að minnsta kosti nítján manns hafa látist í mótmælaaðgerðum víðs vegar um Tyrkland í gær og í dag.

Kúrdar hafa mótmælt á götum úti eftir að tyrknesk stjórnvöld neituðu að grípa til aðgerða til að bjarga borginni Kobane frá vígasveitum IS, en borgin er á landamærum Sýrlands og Tyrklands.

Í frétt Reuters segir að til átaka hafi komið milli kúrdískra mótmælenda og lögreglu, fyrst og fremst í suðausturhluta Tyrklands, en einnig í Istanbúl og höfuðborginni Ankara.

Loftárásir voru gerðar gegn sveitum IS í gær, en þó er enn talið tímaspursmál hvenær Kobane falli í hendur IS-liða. Tyrkir eru undir auknu álagi og hafa verið beðnir um að hjálpa til við vörn borgarinnar gegn vígamönnum IS.

Erindreki Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi hefur beðið alþjóðasamfélagið um að bregðast við svo Kobane falli ekki í hendur IS. Staffan de Mistura segir í samtali við BBC að IS muni fremja fjöldamorð í borginni, verði sú raunin.

Flestir erlendir vígamenn IS komast til Sýrlands í gegnum Tyrkland, en IS-liðar hafa einnig flutt olíu yfir landamærin.

Minnst 400 manns hafa fallið í baráttunni um Kobane og rúmlega 160 þúsund manns hafa flúið borgina yfir landamærin til Tyrklands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×