Innlent

Segir ályktun bera keim af því að vilja gína yfir öllu stóru og smáu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Sveinbjörg Birna greiddi atkvæði gegn tillögu Sjálfstæðisflokksins.
Sveinbjörg Birna greiddi atkvæði gegn tillögu Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Pjetur
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokks og flugvallarvina, greiddi atkvæði móti ályktun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks í borgarráði sem snýr að því að hvetja ríkisstjórn til vandaðrar stjórnsýslu, ekki síst þegar fjalað er um mál sem varða stóra hópa starfsfólks opinberra stofnanna á borð við Fiskistofu.

Sveinbjörg var eini borgarráðsfulltrúinn sem greiddi atkvæði á móti. Hún lagði til bókun vegna málsins:

„Framsókn og flugvallarvinir samþykkja ekki ályktunartillögu borgarráðs, sérstaklega sem snýr að flutningi Fiskistofu, og telja það óeðlilegt út frá stærð og yfirburða styrks Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins með tilliti til atvinnumöguleika, fólksfjölgunar, í menningar-, menntunarlegu og þjónustulegu tilliti, að Reykjavíkurborg sé að álykta um byggðarstefnu ákveðna af ríkisvaldinu. Ber það keim af því að vilja gína yfir öllu stóru og smáu. Er það ekki hlutverk Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar að álykta um byggðastefnu ríkisins.“

Borgarráðsfulltrúar Sjáflstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:

„Borgarráð hvetur til vandaðrar stjórnsýslu af hálfu ríkisins, ekki síst þegar fjallað er um mál sem varða stóra hópa starfsfólks opinberra stofnana á borð við Fiskistofu. Ákvörðun um flutning Fiskistofu er dæmi um óundirbúinn og óvandaðan flutning stofnunar. Enda virðist niðurstaðan verða sú að fæst ef nokkuð af starfsfólkinu flytur með og ríkissjóður verður fyrir óþarfa kostnaði. Ráðherra er hvattur til þess að endurskoða ferli þessa máls og falla frá þessum áformum. Með sama hætti er erfitt að sjá hvernig ný stofnun sem félags- og húsnæðismálaráðherra hefur tilkynnt um á erindi út á land. Þörfin fyrir starfsemi stofnunar sem hefur með barnavernd, réttindagæslu fatlaðs fólks o.fl. er mest á höfuðborgarsvæðinu og á hún því að vera þar. Í anda vandaðrar stjórnsýslu þarf nefnd um endurskoðun stjórnsýslu ríkisins á sviði félagsþjónustu og barnaverndar að ljúka störfum. Við mótun byggðastefnu er kominn tími til að tekið verði tillit til höfuðborgarinnar sem mikilvægs útvarðar byggðar á Íslandi. Stefnumótun í byggðamálum þarf að taka mið af breyttum aðstæðum og þörfum íbúa landsins og viðurkenna mikilvægi höfuðborgarinnar.“

Tillagan var samþykkt með sex atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Tillagan fer til fullnaðarafgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 1. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×