Innlent

Ríkið skaðabótaskylt fyrir að hafa vistað konu nauðuga á geðdeild

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið gaf heimild fyrir því að konan væri vistuð nauðug á geðdeild.
Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið gaf heimild fyrir því að konan væri vistuð nauðug á geðdeild. Vísir / Einar
Íslenska ríkið er skaðabótaskylt gagnvart konu sem vistuð var á geðdeild án hennar vilja í fimmtán daga. Hæstiréttur kvað upp dóm í málinu í dag en fallist var á að tilefni hafi verið til að halda konunni nauðugri á geðdeild í ellefu af þessum fimmtán dögum.

Hæstiréttur snéri með þessu dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem sýknaði ríkið.

Í dómnum kemur fram að rétturinn telji að tilefni hafi verið til að óttast um andlega heilsu hennar og vista hana á geðdeild í ellefu daga en konan var vistuð nauðug í fjóra daga til viðbótar. Konan var vistuð á geðdeild dagana 16. júní til 1. júlí árið 2010.

„Að virtu vottorði utanaðkomandi sérfræðings og upplýsinga í sjúkraskrá [hennar] var á hinn bóginn talið að ekki hefðu verið efni til að vista [hana] nauðuga á geðdeildinni eftir 27. júní 2010,“ segir meðal annars í dómnum.

Rétturinn fellst á að tilefni hafi verið fyrir lögreglu til að óttast um andlega heilsu konunnar og því verið heimilt að fara inn á heimili hennar og flytja hana nauðuga á geðdeild. Þar var hún vistuð á grundvelli lögræðislaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×