Erlent

Íslamska ríkið sagt skipuleggja árásir á neðanjarðarlestarkerfi í París og Bandaríkjunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, á fundi öryggisráðs SÞ
Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, á fundi öryggisráðs SÞ Vísir/Getty
Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, segir að leyniþjónusta landsins hafi komist á snoðir um áform hryðjuverkahópsins Íslamskt ríki um að gera árásir á neðanjarðarlestarkerfi í Bandaríkjunum og París. BBC greinir frá.

al-Abadi hefur látið Barack Obama Bandaríkjaforseta vita en fulltrúar Bandaríkjastjórnar segjast ekki hafa neitt í höndunum sem renni stoðum undir það að árásir verði gerðar á neðanjarðarlestarkerfi.

Talsmaður öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, Caitlin Hayden, sagði ekkert staðfesta að Íslamska ríkið hefði í hyggju að gera slíkar árásir. Hún sagði ráðið hins vegar taka allar hótanir alvarlega og að nú væri unnið að því að fá allar upplýsingar íraskra ráðamanna staðfestar.

Íslamska ríkið ræður yfir stórum hlutum af Írak og Sýrlandi og hefur Bandaríkjaher gert loftárásir á vígi samtakanna í báðum löndunum með það að augnamiði að brjóta hópinn á bak aftur.


Tengdar fréttir

Um 70 þúsund flúið til Tyrklands í dag

Sýrlenskir Kúrdar flykkjast nú yfir landamærin af ótta við árásir Íslamska ríkisins. Ákvörðun Tyrkja um að hleypa þúsundum Kúrda inn fyrir landamæri sín er talin til marks um hversu alvarleg ógn stafar af vígamönnum samtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×