Erlent

Skotar ganga að kjörborðinu

Vísir/AFP
Kjörstaðir hafa verið opnaðir í Skotlandi þar sem landsmenn ákveða hvort þeir skuli öðlast fullt sjálfstæði frá Bretum. Mikil spenna er í kringum kosningarnar enda gætu úrslitin orðið afdrífarík hver sem þau verða.

Rúmlega fjórar milljónir manna eru á kjörskrá og er fastlega búist við afar góðri þátttöku í kosningunum en kosið er á 2600 kjörstöðum víðsvegar um hinar þrjátíu og tvær sýslur sem til teljast til Skotlands.

Til marks um áhugann hafa tæplega 790 þúsund atkvæði þegar verið greidd utan kjörfundar og hefur sú tala aldrei verið eins há í sögu landsins. Eftir að atkvæði hafa verið talin í hverri sýslu fyrir sig mun formaður kjörstjórnar, Mary Pitcaithly, taka við tölunum og það er hún sem mun á endanum tilkynna landsmönnum um úrslit kosninganna.

Talið er að það verði einhverntímann á bilinu frá klukkan hálfsjö til hálfátta á föstudagsmorgun. Ekki verður notast við útgönguspár og ekki greint frá fyrstu tölum eins og tíðkast hér á landi. Þó kemur til greina að úrlslit verði kunngjörð áður en öll atkvæði hafa verið talin, ef ljóst er að annað sjónarmiðið hafi orðið ofaná.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×