Erlent

NATO í brennidepli í Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, og Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, og Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Vísir/AFP
Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir að löngun yfirvalda í Úkraínu til að ganga í NATO dragi úr líkum á friði. Þrátt fyrir það fundar forseti Úkraínu, Petro Poroshenko, með Barack Obama og öðrum leiðtogum NATO í Wales.

Tilkynnt var um viðræður á milli Úkraínu og Rússlands í gær sem eigi að stöðva átök í austurhluta Úkraínu. Vladimir Putin, forseti Rússlands, vísaði í gær til sjö þrepa áætlunar og sagðist vonast eftir því að viðræður sem fram fara í Hvíta-Rússlandi á morgun bæru árangur.

Sergey Lavrov sagði þó í sjónvarpsávarpi í morgun að tilkynningar háttsettra embættismanna í Úkraínu um mögulega inngöngu landsins í NATO ógnaði friðarferlinu.

AP fréttaveitan segir að þrátt fyrir að Úkraína vilji ganga í NATO, hafi háttsettir menn innan bandalagsins gert ljóst að innganga sé ekki á borðinu í bráð. Forseti Úkraínu mun funda með leitogum aðildarríkja NATO í dag.

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, sakaði í morgun Rússa um að hafa áframhaldandi ítök í Austur-Úkraínu, þrátt fyrir yfirlýsingar um frið.

„Það sem skiptir máli er hvað er að gerast á svæðinu. Við erum enn að sjá, því miður, þátttöku Rússlands í átökunum. Við höldum því áfram að kalla eftir því að Rússland dragi hermenn sína til baka, stöðvi flæði vopna og manna yfir landamærin og taki þátt í uppbyggilegum viðræðum. Það myndi vera raunveruleg viðleitni til að stuðla að friðsamlegri lausn deilunnar í Úkraínu,“ segir Rasmussen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×