Innlent

Féll 20 metra úr bjargi í Vestmannaeyjum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Heimaey
Heimaey Vísir/ÓSKAR
Karlmaður á sextugsaldri var fluttur með þyrlu á Landspítalann í Reykjavík eftir að hann hrapaði úr bjargi í Vestmannaeyjum í dag. Maðurinn hafði verið ásamt öðrum við súluveiðar í Súlnaskeri, þverhníptum klettadrangi um níu kílómetra sunnan Heimaeyjar.

Lögreglan í Vestmannaeyjum segir að maðurinn, sem er heimamaður og þaulvanur, hafi verið að klífa niður úr bjarginu í aðdraganda slyssins. Súlnasker er um 80 metra hátt en maðurinn féll um 15 til 20 metra, skall utan í klettana og lenti í sjónum. Samferðamenn hans drógu manninn upp í bátinn og sigldu með hann til Heimaeyjar. Maðurinn var með meðvitund þegar honum var komið undir læknishendur og ekki talinn alvarlega slasaður.

Lögreglan telur að maðurinn hafi verið einn að veiðum í klettunum þegar hann hrapaði. Því hafi hann ekki verið með öryggislínu en að sögn lögreglunnar tíðkast ekki að menn reiði sig á slíkan búnað á þessum stað í Súlnaskeri.

RÚV greindi fyrst frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×