Innlent

Dauðsfallið á Hvammstanga: Niðurstöður úr krufningu liggja fyrir

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá Hvammstanga.
Frá Hvammstanga. vísir/jón sigurður
Niðurstöður úr krufningu mannsins sem lést eftir meinta líkamsárás á Hvammstanga í júnímánuði liggja nú fyrir. Skýrslunni var skilað inn um mánaðarmótin.

„Það er ekki búið að fara í gegnum skýrsluna og því ekki hægt að segja neitt að svo stöddu. Málið verður skoðað, hvort við þurfum að gera eitthvað frekar, og verður síðan sent saksóknara,“ segir Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn á Akureyri.

Líkt og fjallað var um á Vísi í gær hafði niðurstaðanna verið beðið í um tíu vikur. Jón Gunnlaugur Jónasson, yfirlæknir rannsóknarstofu í meinafræði við Landspítalann, útskýrði í samtali við Vísi í gær hvers vegna svo langan tíma gæti tekið að fá niðurstöður þegar um réttarkrufningar væri að ræða.

Í kjölfar samtals Vísis við Jón Gunnlaug kom á daginn að skýrslunni var nýbúið að koma í hendur lögreglu.

„Málið verður sent til saksóknara upp úr miðjum mánuði,“ bætir Daníel við.

Tomasz Krzeczkowsk lést hinn 18. júní eftir meinta líkamsárás á Hvammstanga sem átti sér stað þremur dögum áður. Upprunalega voru fjórir menn settir í gæsluvarðhald vegna málsins en var tveimur þeirra sleppt 19. júní.

Tveir menn, feðgar sem bjuggu í húsinu á Hvammstanga þar sem Krzeczkowski fannst, eru grunaðir um að hafa banað honum aðfaranótt sunnudagsins 15. júní. Sæta þeir farbanni.


Tengdar fréttir

Mögulegt fyrra höfuðhögg til skoðunar

Lögreglan á Akureyri hefur meðal annars til rannsóknar hvort maðurinn sem lét lífið af völdum höfuðhöggs um Hvítasunnuhelgina hafi viku fyrr fengið höfuðhögg í skírnarveislu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×