Innlent

Ekki sjálfsagt að farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Hvammstanga.
Frá Hvammstanga. Vísir/Jón Sigurður
Ákveðið verður á morgun hvort farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum, öðrum á þrítugsaldri og hinum á sextugsaldri, sem grunaðir eru um líkamsárás sem leiddi til dauða manns á Hvammstanga um liðna helgi.

Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Akureyri sem fer fyrir rannsókninni, segir enga ákvörðun hafa verið tekna um það hvort farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald.

„Það er ekki sjálfsagt,“ segir Daníel en ákvörðunin verði tekin á morgun. Þá er ekki von á niðurstöðu réttarmeinafræðings fyrr en í næstu viku.

Daníel segir í Fréttablaðinu í dag að ekki sé hægt að gefa sér fyrir fram að um líkamsárás hafi verið að ræða og að maðurin hafi hlotið höggið af mannavöldum fyrr en rannsókn bendi til þess.

Þá telur Daníel ljóst að mennirnir tveir, sem leystir voru úr gæsluvarðhaldi í gær, hafi ekki átt hlut að máli. Þeir hafi ekki verið á staðnum þegar meint árás átti sér stað.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni á Akureyri í gær kom fram að Tomaszar Grzegorz Krzeczkowsk, 35 ára Pólverji, hefði látið lífið af völdum þungs höfuðhöggs sem leiddi til höfuðkúpubrots. Líkt og Vísir fjallaði um í gær komu læknir og sjúkrabíll ekki að hinum látna fyrr en um fimmleytið síðdegis á laugardeginum.

Sá læknir sem mætti á staðinn sá ekki ástæðu til að tilkynna málið til lögreglu heldur gerði læknir í Reykjavík það fimm klukkustundum síðar. Lögreglumenn á Blönduósi skoðuðu íbúðina þar sem Tomasz fannst og í kjölfarið voru fjórir menn handteknir. Þeir voru svo úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Samkvæmt heimildum Vísis var fátt sem benti til þess að slagsmál hefðu verið í íbúðinni um nóttina. Sömu heimildir herma að lýsingar á blóðslettum í íbúðinni sem fram hafi komið í fjölmiðlun séu ekki á rökum reistar.

Enn sitja tveir menn, annar á þrítugsaldri og hinn á sextugsaldri, í gæsluvarðhaldi. Daníel segir enga ákvörðun hafa verið tekna um það hvort farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald.

„Það er ekki sjálfsagt,“ segir Daníel en ákvörðunin verði tekin á morgun. Þá er ekki von á niðurstöðu réttarmeinafræðings fyrr en í næstu viku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×