Innlent

Maðurinn í öndunarvél og honum haldið sofandi

Jakob Bjarnar skrifar
Maðurinn er nú á gjörgæsludeild þar sem hann er í öndunarvél og honum haldið sofandi.
Maðurinn er nú á gjörgæsludeild þar sem hann er í öndunarvél og honum haldið sofandi.
Maður liggur nú á gjörgæsludeild eftir alvarlega árás á Hvammstanga á laugardagskvöld. Maðurinn hlaut meðal annars alvarlega áverka á höfði.

Karlmaður á fertugsaldri er í lífshættu eftir að á hann var ráðist á Hvammstanga laugardagskvöld. Hann var fluttur með sjúkrabíl til Reykjavíkur og tilkynnti læknir á bráðdeild Landspítalans um málið til lögreglu.

Maðurinn er á gjörgæslu og er honum haldið sofandi. Hann er nú í öndunarvél og er ástand hans óbreytt að sögn vakthafandi læknis. Áverkar hans eru alvarlegir en þeir eru meðal annars á höfði. Ekki fengust upplýsingar um horfur. 

Vísir greindi frá málinu um helgina en þar kemur meðal annars fram að árásarmennirnir hafi verið á öllum aldri, sá yngsti er um tvítugt en sá elsti á sextugsaldri en lögreglan á Akureyri, sem fer með rannsókn málsins vildi ekki gefa upp nánari upplýsingar að svo stöddu, en staðfesti þó að fjórir karlmenn lægju undir grun. Talið er að mennirnir hafi verið í gleðskap ásamt fimmta manni í íbúð eins árásarmannanna.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Akureyri nú í morgun eru mennirnir í haldi og farið hefur verið fram á gæsluvarðhaldsúrskurð meðan á rannsókn málsins stendur. Þeir bíða nú úrskurðar dómara og vænta hans einhvern tíma í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×