Innlent

Ættingjar og vinir hins látna hrærðir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hvammstangakirkja.
Hvammstangakirkja. Vísir/Jón Sigurður
Minningar- og bænastund vegna andláts Tom­aszar Grzeg­orz Krzecz­kowsk í fyrrinótt var vel sótt á Hvammstanga í gærkvöldi. Magnús Magnússon, sóknarpresturinn á Hvammstanga, segir athöfnina hafa verið afar vel sótta. Um níutíu til hundrað manns hafi minnst Tomasz í Hvammstangakirkju í gærkvöldi.

„Stundin gekk mjög vel og það hefur verið mikill samhugur og stuðningur í samfélaginu. Það þótti vinum og ættingjum Tomaszar mjög vænt um og voru hrærðir,“ segir Magnús.

Tomasz, sem var 35 ára Pólverji, var fluttur til Reykjavíkur á sjúkrahús síðdegis síðastliðinn laugardag. Ástand hans var mjög alvarlegt og var honum haldið sofandi í öndunarvél. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans í fyrrinótt. Fjórir menn voru handteknir vegna málsins laugardagskvöld en þeir voru allir kunningjar hins látna. Voru þeir í kjölfarið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til sunnudags vegna gruns um líkamsárás.

Íbúar á Hvammstanga eru harmi slegnir vegna málsins og skilja hvorki upp né niður.

Hörkuduglegir menn

„Það getur enginn skilið þetta. Við bara trúum þessu ekki. Við trúum ekki að það hafi verið framinn neinn glæpur,“ segir íbúi á Hvammstanga.

Læknir og sjúkrabíll komu að hinum látna í íbúð á Hvammstanga um fimmleytið á laugardaginn. Lá hann meðvitundarlaus í sófanum. Samkvæmt heimildum Vísis var þó fátt sem benti til þess að slagsmál hefðu verið í íbúðinni um nóttina. Sömu heimildir herma að lýsingar á blóðslettum í íbúðinni sem fram hafi komið í umfjöllun fjölmiðla séu ekki á rökum reistar.

Sú staðreynd að lögreglan á Blönduósi var ekki ræst út fyrr en um kvöldið, fimm klukkustundum eftir að læknir og sjúkrabíll mættu á svæðið á Hvammstanga, renna stoðum undir það. Það var ekki fyrr en læknir hafði skoðað hinn slasaða að ástæða þótti til að kalla til lögreglu. Hún mætti á svæðið um ellefu leytið á laugardagskvöld. Í kjölfarið voru mennirnir fjórir handteknir.

„Þetta eru skínandi menn. Hörkuduglegir,“ segir viðmælandi Vísis á Hvammstanga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×