Innlent

Mögulegt fyrra höfuðhögg til skoðunar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Hvammstanga.
Frá Hvammstanga. Vísir/Jón Sigurður
Lögreglan á Akureyri hefur meðal annars til rannsóknar hvort maðurinn sem lét lífið af völdum höfuðhöggs um Hvítasunnuhelgina hafi viku fyrr fengið höfuðhögg í skírnarveislu. Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Akureyri sem fer fyrir rannsókn málsins, staðfestir þetta í samtali við Vísi.

„Já, við höfum heyrt þetta allt saman,“ segir Daníel aðspurður um hið fyrra höfuðhögg. Hann staðfestir að lögreglan vinni úr þeim upplýsingum sem hún hafi. „Við tökum allt sem við teljum upplýsandi til skoðunar,“ segir Daníel.

Fjórir menn voru handteknir vegna málsins. Feðgarnir, sem búa í íbúðinni þar sem komið var að hinum látna, auk tveggja annarra. Voru allir fjórir úrskurðaðir í gæsluvarðhald mánudaginn 16. júní en þeim tveimur síðarnefndu sleppt á fimmtudeginum, þremur dögum síðar.

„Þeir tveir sem fyrst voru látnir lausir úr fangelsi myndu ekki einu sinni kremja flugu. Þeir myndu reyna að bjarga henni,“ segir viðmælandi Vísis á Hvammstanga sem þekkir til mannanna. Daníel sagði við Fréttablaðið í vikunni ljóst að mennirnir tveir hefðu ekki átt hlut að máli. Þeir hefðu ekki verið á staðnum þegar hin meinta árás átti sér stað.

Trúa ekki að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað

Lögreglan bíður nú niðurstöðu krufningar sem er að vænta síðar í vikunni. Daníel vill ekkert gefa upp um hvort talið sé að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað eða að um slys hafi verið að ræða.

Áðurnefndum viðmælanda Vísis á Hvammstanga ofbýður umfjöllun fjölmiðla um málið sem hafi slæm áhrif á samfélagið á Hvammstanga.

„Okkur bæjarbúum hefur sviðið mjög sárt hvernig allir fjölmiðlar hafa étið hver upp eftir öðrum í umfjöllun sinni. Þetta er hrikalega erfitt fyrir aðstandendur sem búa hér í þessu samfélagi.“

Um sé að ræða hörkuduglega og strangheiðarlega menn. Fólk í hennar nærumhverfi á Hvammstanga hafi ekki trúað í eina sekúndu að eitthvað saknæmt hefði átt sér stað. Allir þeir íbúar á Hvammstanga sem Vísir hefur rætt við undanfarna tíu daga hafa lýst yfir sömu skoðun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×