Innlent

"Við eigum frábært starfsfólk en heldur lítið af því"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Ekki var hægt að senda varðskipið Þór, öflugasta skip Landhelgisgæslunnar og hið eina sem hefur sérstakan búnað til að dæla olíu úr sjó, strax á vettvang þegar Akrafell strandaði við Vattarnes um helgina, þar sem ekki var til mannskapur til að manna tvö skip í einu.

Áhöfnin sem var í vinnu, var á varðskipinu Ægi sem fór þegar á strandstaðinn, en vegna umfangs verkefnisins var áhöfn kölluð út á Þór.

„Að okkar mati gekk mjög vel að manna hann og viðbragðstíminn í raun mjög góður miðað við að það fólk sem þar fór um borð var í fríi,“ segir Auðunn F. Kristinsson, verkefnastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.

Auðunn segir þörf á meiri mannskap. „Það liggur í augum uppi. Fyrir nokkrum árum áttum við þrjár áhafnir og gátum alltaf mannað tvö skip hverju sinni en núna erum við með eina og hálfa áhöfn og getum mannað eitt skip hverju sinni,“ segir hann.

Er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af þessu, til dæmis ef til meira aðkallandi verkefna kæmi?

„Jú, auðvitað þyrftum við að vera betur mönnuð.“

Auðunn segir Landhelgisgæsluna hafa þurft að skera niður eins og aðrar opinberar stofnanir. „Við búum í þannig landi að við getum aldrei gert ráð fyrir að geta sinnt öllum atvikum með fullum árangri og við vildum vissulega vera miklu betur mönnuð og búin. Við eigum frábært starfsfólk en heldur lítið af því.“

Eins og Vísir sagði frá var flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, ekki til taks nú fyrir helgina til að sinna verkefnum tengdum eldgosinu í Holuhrauni. Var hún í tilraunaverkefni á Grænlandi í tengslum við áform um að sjá sameiginlega um eftirlit, leit og björgun á Grænlandi með Dönum. „Þetta er einn liður í að reyna að minnka veru okkar í Miðjarðarhafinu og reyna að fá að vinna nær Íslandsmiðum,“ segir Auðunn

Er það til þess að stytta viðbragðstímann?

„Já, og til að hámarka tímann sem vélin er við Ísland. Svona flugvél þyrfti alltaf að vera til taks allt árið um kring.“


Tengdar fréttir

Tjónið óljóst

Forstjóri Samskipa, Pálmar Óli Magnússon, segist enga hugmynd hafa um hversu mikið tjón hafi orðið þegar flutningaskipið Akrafell strandaði á laugardag.

Dælur hafa ekki undan

Talsverður sjór er í vél Akrafells sem misst hefur allt vélarafl og rafmagn.

Kapp lagt á að bjarga farmi Akrafells

Mikið af verðmætum frosnum fiski til útflutnings er í frystigámum um borð í Akrafelli sem ekki hafa fengið rafmagn frá því skipið strandaði.

Enn ráða dælur ekki við lekann

Unnið er að því um borð að setja upp skilrúm og koma í veg fyrir að sjórinn nái úr vélarrými skipsins. Kafarar vinna nú að því að meta stöðuna varðandi skemmdir á botni skipsins.

Akrafell komið í höfn

Skipið losnaði um miðnætti í nótt í kjölfar háflóðs og skipið Aðalsteinn dró það þá til hafnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×