Innlent

Tjónið óljóst

Unnið er að því að meta hversu mikið tjón varð á skipinu.
Unnið er að því að meta hversu mikið tjón varð á skipinu. mynd/Gunnar gunnarsson
„Ég hef enga hugmynd um hvert tjónið er. Það er of mörgum spurningum ósvarað,“ segir Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa, um Akrafell, flutningaskip Samskipa sem strandaði undan Vattarnesi að morgni laugardags. Skipið liggur nú við bryggju á Eskifirði.

„Það er eitthvað í að það verði náð utan um allt saman, en það var mikil lukka að ekki fór verr og engin mannskaði varð,“ heldur Pálmar áfram og segir ákveðnum áfanga náð nú þegar skipið er komið í höfn.

pálmar Óli Magnússon
„Hættan er minni nú, en þegar skipið lá ennþá úti. Og nú miðast allar aðgerðir við að tryggja frekar ástand þess og farmsins og tryggja stöðugleika skipsins. Nú munu menn fara og kafa þarna og skoða betur botninn á skipinu. Það verður svo farið inn í það og menn skoða það sem hægt er að skoða og leggja mat á hvað það er sem þarf að gera til að ná að losa farminn. Svo væntanlega verður skipið gert klárt til að flytja það annað og gera við það, ef það er hægt,“ útskýrir hann.

„Nú erum við komnir í betri aðstöðu til að meta tjónið og næstu skref. En þetta verður rannsakað, það er að segja hvað olli strandinu. Það verða væntanlega skýrslutökur af áhöfn og sjópróf eins og er hefðbundið við svona aðstæður. Sú rannsókn mun vonandi leiða í ljós hvað það var sem gerðist.“

Pálmar segist þakklátur öllum þeim sem tóku þátt í aðgerðunum til þess að koma skipinu í var. „Nú fyrst er hægt að byrja að meta tjónið og hver verða næstu skref. Það er erfitt að segja hvað það mun taka langan tíma, en verður alveg örugglega næsta vika og eitthvað lengur, þar sem verður unnið áfram við skipið og farminn á Eskifirði. En það liggur svo sem ekkert fyrir í þeim efnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×