Innlent

Enn ráða dælur ekki við lekann

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Pétur Kristinsson
Flutningaskipið Akrafell er laust að framan og virðist sitja á klettanibbu. Sjór hækkar enn í vélarrúmi skipsins og dælur virðast ekki hafa undan. Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að enn sé engin mengun sjáanleg.

Þá er unnið að því um borð að setja upp skilrúm og koma í veg fyrir að sjórinn nái úr vélarrými skipsins. Kafarar vinna nú að því að meta stöðuna varðandi skemmdir á botni skipsins.

Varðskipið Þór verður sent frá Reykjavík og áætlað er að það komi á strandsstað um miðjan dag á morgun. Þór mun taka við vettvangsstjórn af varðskipinu Ægi sem og dráttartaug frá Aðalsteini Jónssyni.

Um tuttugu manns vinna nú um borð í Akrafelli. Sex úr áhöfn skipsins, fjórir frá Landhelgisgæslunni og tíu manns frá björgunarsveitum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Í tilkynningunni segir að við ákvörðun næstu skrefa verði horft til þess að lágmarka áhættu með hliðsjóna af umhverfisvá, en fyrst og síðast að tryggja öryggi allra þeirra aðila sem komi að aðgerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×