Innlent

Köfurum tekist að loka fyrir streymi inn í Akrafell

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Skipið strandaði klukkan fimm í morgun.
Skipið strandaði klukkan fimm í morgun. Mynd/Pétur
Kafarar Landhelgisgæslunnar vinna nú að því að rannsaka botn skipsins Akrafells utan frá en þeim tókst seint á fimmta tímanum að loka fyrir streymi inn í vélarrúm flutningaskipsins. Skipið strandaði fyrir nær þrettán tímum síðan milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.

Kafarar köfuðu inn í vélarrúm skipsins við mjög erfiðar aðstæður að því er segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni til þess að dæla úr skipinu og sú dæling virðist loks hafa borið árangur. Áhöfn skipsins var flutt af skipinu heil á höldnu en mikill leki kom í skipið við strandið. Engin mengun er sjáanleg á svæðinu þegar flugvélin TF-SIF flaug yfir staðnum eftir hádegi í dag. Eins og staðan er nú liggur dráttartaug frá Akrafelli í skipið Aðalstein Jónsson SU en varðskipið Þór kemur til með að taka við dráttartaug á vettvangsstjórn þegar það kemur á vettvang um miðjan dag á morgun. Varðskipið lagði af stað síðdegis frá Reykjavík. Auk Aðalsteins Jónssonar hafa björgunarsveitir og skip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, lóðsbátturinn Vöttur og fleiri skip og bátar annars staðar að tekið þátt í björgunaraðgerðum.

Þriðji samráðsfundur Landhelgisgæslunnar með Umhverfisstofnun, Samgöngustofu, Hafrannsóknarstofnun og Samskipum hefst hvað á hverju. „Við ákvörðun næstu skrefa er horft til þess að lágmarka áhættu með hliðsjón af umhverfisvá en fyrst og síðast að tryggja öryggi allra þeirra aðila sem koma að aðgerðinni,“ segir í tilkynningunni. 


Tengdar fréttir

Dælur hafa ekki undan

Talsverður sjór er í vél Akrafells sem misst hefur allt vélarafl og rafmagn.

Enn ráða dælur ekki við lekann

Unnið er að því um borð að setja upp skilrúm og koma í veg fyrir að sjórinn nái úr vélarrými skipsins. Kafarar vinna nú að því að meta stöðuna varðandi skemmdir á botni skipsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×