Innlent

Dælur hafa ekki undan

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Pétur Kristinsson
Landhelgisgæslan fundaði í morgun með fulltrúum Umhverfisstofnunar, Samskipa og Samhæfingarstöðvarinnar. Þar var farið yfir stöðuna vegna strands Akrafells við Reyðarfjörð. Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að talsverður sjór sé í vél skipsins og að það hafi misst allt vélarafl og rafmagn.

Dælur hafa ekki undan og er unnið að því að útvega fleiri.

Þá hefur dráttartaug verið komið í skipið frá uppsjávarskipinu Aðalsteini Jónssyni frá Eskifirði. Reiknað er með flóði um hádegið og því er beðið átekta. Varðskipið Ægir kemur á vettvang eftir um þrjá tíma og mun það taka við dráttartauginni vettvangsstjórn á svæðinu, sem nú er í umsjón Hafbjargar frá Neskaupsstað.

Ekki er búið að staðsetja lekann en kafarar frá Ægi munu kanna botn skipsins. Þá mun mengun frá skipinu ekki vera sjáanleg, en unnið er að því að senda mengunargirðingar á staðinn frá bæjarfélögum á svæðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×