Innlent

Háflóð í nótt og hugsanlegt að skipið losni

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Mynd/Pétur Kristinsson
„Það verður aftur háflóð um miðnætti og það er hugsanlegt að skipið losni þá,“ sagði Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, eftir stöðufund um skipstrand Akrafells ásamt Umhverfisstofnun, Samgöngustofu, Hafrannsóknarstofnun og Samskipum.

Hrafnhildur segir stöðuna í raun óbreytta en á fimmta tímanum bárust fregnir þess efnis að köfurum hefði tekist að loka fyrir streymi inn í vélarrúm flutningaskipsins. „Dælurnar sem eru um borð hafa þá undan,“ útskýrir Hrafnhildur. Skipið er að léttast en ekki verður farið í að draga það upp fyrr en á morgun þegar Varðskipið Þór kemur um hádegi. „Kafarar hafa verið að skoða botninn utan frá og við fyrstu skoðun þá virðist allavega ekki vera nein stór rifa á skrokknum. En þetta verður allt skoðað betur á morgun í birtu.“ Hrafnhildur segir að nú hyggist Landhelgisgæslan hætta aðgerðum í bili en eftirlit verður með skipinu í nótt. „Varðskipið Ægir verður þarna í nótt og skipið sem er enn með dráttartaug fast í Akrafelli. Það verður mannskapur á staðnum að fylgjast með.“

Losni skipið í nótt í kjölfar háflóðs verður það annaðhvort dregið út á sjó eða inn í höfnina ef það virðist vera alveg stöðugt.

Hrafnhildur segir sex meðlimi áhafnarinnar hafa aðstoðað við björgunaraðgerðir í dag. 


Tengdar fréttir

Dælur hafa ekki undan

Talsverður sjór er í vél Akrafells sem misst hefur allt vélarafl og rafmagn.

Enn ráða dælur ekki við lekann

Unnið er að því um borð að setja upp skilrúm og koma í veg fyrir að sjórinn nái úr vélarrými skipsins. Kafarar vinna nú að því að meta stöðuna varðandi skemmdir á botni skipsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×