Fótbolti

Mazzarri: Höfum öllu að tapa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Inter á æfingu á Laugardalsvelli í gær.
Leikmenn Inter á æfingu á Laugardalsvelli í gær. Vísir/Andri Marinó
„Það er skylduverkefni að vinna báða leikina,“ sagði Walter Mazzarri, þjálfari Inter, á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Stjörnunni í forkeppni Evrópudeildarinnar sem hefst klukkan 21:00 á Laugardalsvelli í kvöld.

Þjálfarinn segir að öll pressan sé á hans liði.

„Við höfum öllu að tapa, Stjarnan allt að vinna. Pressan er öll á okkur. Það er ekki neitt annað í boði en að komast áfram,“ sagði Mazzarri, en við hvernig leik býst hann í kvöld?

„Við munum spila okkar leik, hvort sem það er í leiknum í kvöld eða seinni leiknum. Ég á von á því að Stjarnan muni reyna að nýta sér skort á leikformi hjá okkur.

„Tímabilið hjá okkur er ekki hafið og við erum kannski ekki með taktíkina 100% á hreinu enn sem komið er. Stjarnan mun líklega liggja til baka og bíða eftir því að við munum gera mistök,“ sagði Mazzarri sem lék með fjölda liða á ferli sínum sem leikmaður. Hann hóf þjálfaraferilinn í neðri deildunum hjá Acireale, og hefur síðan þá stjórnað Pistoiese, Livorno, Reggina, Sampdoria, Napoli og nú Inter.

Undir hans stjórn hafnaði Inter í 5. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar í fyrra, heilum 42 stigum á eftir meisturum Juventus. Fimmta sætið var þó nóg til að tryggja liðinu sæti í Evrópudeildinni. Mazzarri sagði að hann myndi reyna að nota sem flesta leikmenn í leikjunum tveimur gegn Stjörnunni í ljósi þess að hans menn séu ekki komnir í 100% leikform.

„Það eru ekki allir tilbúnir í 90 mínútna leik. Nokkrir mikilvægir leikmenn eru frá vegna meiðsla eða nýkomnir úr meiðslum.

„Það er slæmt að Gary Medel (sem kom frá Cardiff í sumar) geti ekki verið með, það er stutt síðan Daniel Osvaldo gekk til liðs við okkur og Hernanes og Dodo eru báðir nýstignir upp úr meiðslum,“ sagði Mazzarri sem hefur ekki áhyggjur af hitastiginu í kvöld.

„Ég er ánægður með kuldann - þá verður auðveldara að hlaupa,“ sagði Ítalinn að lokum í gamansömum tón.


Tengdar fréttir

Búumst við ævintýralegri stemningu

Stjarnan og ítalska stórliðið Inter mætast næsta miðvikudag í Evrópudeildinni og verður leikið á Laugardalsvelli. Það er þegar uppselt á leikinn og von á einstakri stemningu í Dalnum á miðvikudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×