Enski boltinn

Torres fer ekki ódýrt frá Chelsea

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Fernando Torres hefur gert Chelsea erfitt fyrir en hann krefst þess að félagið greiði upp samning hans ætli þeir að selja hann. Torres sem er einn af launahæstu leikmönnum liðsins hefur verið orðaður við Roma undanfarnar vikur.

Torres sem gekk til liðs við Chelsea í janúarglugganum árið 2011 hefur aldrei náð að standa undir þeim gríðarlegu væntingum sem gerðar voru til hans í London. Greiddi Chelsea 50 milljónir punda fyrir hann og greiðir honum 150.000 pund á viku, tæplega þrjátíu milljónir íslenskra króna.

Torres sem var orðaður við Roma í síðustu viku var ekki í leikmannahóp Chelsea um helgina í 2-0 sigri á nýliðum Leicester. Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, treysti á landa Torres, Diego Costa og Didier Drogba.

Mourinho hefur alltaf neitað þegar hann hefur verið spurður hvort Torres sé á förum frá félaginu en talið er að hann sé loksins tilbúinn til þess að selja spænska framherjann.

Torres er samkvæmt heimildum Daily Mail tilbúinn að yfirgefa félagið ef Chelsea greiðir upp samninginn hans, tæplega 16 milljónir punda eða rúmlega 3 milljarða íslenskra króna en Roma getur ekki boðið nálægt þeim launum sem hann fær hjá Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×