Erlent

Flugmenn neyddust til að lenda því farþegar rifust um hallandi sætisbak

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Flugmenn töldu sig tilneydda að lenda vélinni í Chicago.
Flugmenn töldu sig tilneydda að lenda vélinni í Chicago.
Flugmenn United Airlines neyddust til að lenda flugvél sem þeir flugu frá Newark til Denver vegna rifrildis tveggja farþega um hvort annar mætti halla sætisbaki sínu.

Farþegarnir voru í sætum sem voru með betra fótarými en á almennu farrými.

Atvikið átti sér stað þegar flugvélin var skammt frá Chicago. Upphaf þess má rekja til þess að maður læsti tæki sem kallast Hnjávarinn (eða Knee-defender á ensku) í sætið fyrir framan sig. Hnjávarinn kemur í veg fyrir að hægt sé að halla sætisbökum og er ólöglegt. Kona sem sat fyrir framan manninn ætlaði að halla sæti sínu. Hún tók eftir því að maðurinn hafði læst Hnjávaranum við sætið og reiddist mjög, eins og kemur fram í umfjöllun Washington Post.

Flugfreyjur reyndu að skakka leikinn en maðurinn neitaði að fjarlægja Hnjávarann af sæti konunnar. Konan skvetti þá vatni í andlit mannsins. Þegar flugmennirnir fréttu af þessum átökum töldu þeir nauðsynlegt að lenda vélinni í Chicago. Þegar þangað var komið var báðum farþegunum fylgt frá borði. Lögreglan var kölluð til en hvorugur farþeganna var handtekinn.

Hnjávarinn var fundinn upp af hinum 191 sentímetra háa Ira Goldman fyrir um áratug. Farþegar sem nota tækið læsa því í sætinu fyrir framan sig sem kemur í veg fyrir að sá sem situr fyrir framan geti hallað sætisbaki sínu. Tækið kostar rúmlega 2500 krónur en óheimilt er að nota það í flugi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×