Erlent

Fannst látin í ferðatösku á Balí

Atli Ísleifsson skrifar
Myndbandsupptökur úr anddyri hótelsins sýna hvernig konan og kærasti dóttur hennar rifust heiftarlega á mánudagskvöldið.
Myndbandsupptökur úr anddyri hótelsins sýna hvernig konan og kærasti dóttur hennar rifust heiftarlega á mánudagskvöldið. Vísir/AFP
62 ára bandarísk kona fannst látin í ferðatösku við lúxushótel á indónesísku eyjunni Balí í gær. Dóttir konnunar og kærasti hennar hafa nú verið handtekin grunuð um morðið.

Ferðataskan fannst í leigubíl sem hafði verið lagt fyrir utan hótelið Sankti Regis á svæðinu Nusa Dua. Að sögn lögreglu voru merki um áverka á líki konunnar, þar á meðal á höfði. Í frétt Bangkok Post er haft eftir lækni að svo virðist sem hún hafi barist fyrir lífi sínu.

Konan á að hafa varið nokkrum dögum á hótelinu með dóttur sinni og kærasta hennar, en á myndbandsupptökum úr anddyri hótelsins má sjá hvernig konan og kærasti dótturinnar rifust heiftarlega á mánudagskvöldið.

Morguninn eftir skráði parið unga sig út af hótelinu og lét starfsfólk hótelsins bera nokkrar töskur niður þar sem þau höfðu pantað leigubíl. Parið unga mætti hins vegar aldrei til að ná leigubílnum og uppgötvuðu starfsmenn hótelsins þá lík konunnar í kjölfarið.

Í stað þess að greiða fyrir dvölina á hótelinu læddust þau út bakdyramegin, en voru handtekin nú í morgun þegar þau fundust sofandi á öðru hóteli í hverfinu Legian.

Lík bandarísku konunnar hefur verið sent til krufningar í borginni Denpasar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×