Enski boltinn

Nýr leikmaður Southampton fékk tíu leikja bann fyrir fótbrot

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Florin Gardos er mættur í úrvalsdeildina.
Florin Gardos er mættur í úrvalsdeildina. vísir/getty
Southampton heldur áfram að styrkja liðið fyrir átökin í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, en í dag tilkynnti liðið um kaup á framherjanum ShaneLong og rúmenska miðverðinum Florin Gardos.

Gardos kemur til Dýrlinganna frá Steaua Búkarest í Rúmeníu þar sem hann hefur leikið síðan 2010. Talið er að Southampton borgi Steaua sex milljónir punda fyrir leikmanninn.

„Þetta er einn af bestu dögum lífs míns og stórt skref á mínum ferli. Að spila í ensku úrvalsdeildinni er risastórt fyrir mig,“ sagði Gardos eftir undirskriftina, en hann gerði fjögurra ára samning.

„Southampton stóð sig vel á síðustu leiktíð og mér líst vel á félagið við fyrstu sýn. Hér er allt í kringum félagið stærra en heima. Ég hef alltaf sagt að það yrði draumur að spila í úrvalsdeildinni.“

Gardos, sem á tólf landsleiki að baki fyrir Rúmeníu, þykir harður í horn að taka, en árið 2011 fékk hann tíu leikja bann fyrir rautt spjald í leik gegn Pandurii í rúmensku 1. deildinni.

Hann tæklaði Cosmin Bacila, leikmann Pandurii, svakalega þegar fjórar mínútur voru eftir af leik liðanna með þeim afleiðingum að fóturinn á Bacila mölbrotnaði. Hann var frá í sjö mánuði.

Myndband af tæklingunni má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×