Enski boltinn

Mackay líklegastur til að taka við Crystal Palace

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mackay kom Cardiff upp í úrvalsdeildina.
Mackay kom Cardiff upp í úrvalsdeildina. Vísir/Getty
Samkvæmt veðbönkum er Skotinn Malky Mackay, fyrrverandi knattspyrnustjóri Watford og Cardiff City, líklegastur til að taka við Crystal Palace sem er stjóralaust eftir að Tony Pulis hætti skyndilega í gær.

Mackay tók við Cardiff sumarið 2011 og undir hans stjórn tryggði liðið sér sæti í ensku úrvalsdeildinni vorið 2013. Skotinn stýrði Cardiff á fyrri hluta síðasta tímabils, en Vincent Tan, hinn umdeildi eigandi Cardiff, rak Mackay eftir 3-0 tap gegn Sunderland á heimavelli í lok desember.

Meðal annarra sem þykja líklegir til að taka við stjórastarfinu hjá Palace má nefna Neil Lennon, Tim Sherwood og Keith Millen.

Lennon stýrði Celtic á árunum 2010-2014 og gerði liðið þrisvar að Skotlandsmeisturum og tvisvar að bikarmeisturum. Hann er enn án starfs eftir að hafa hætt hjá Celtic fyrr í sumar.

Sherwood stýrði Tottenham á seinni hluta síðasta tímabils eftir að André Villas-Boas var látinn taka pokann sinn. Sherwood fékk upphaflega 18 mánaða samning, en var rekinn í lok síðasta tímabils. Hann hefur verið orðaður við nokkur lið í sumar og að eigin sögn hafnaði hann því að taka við WBA.

Millen tók við Palace til bráðabirgða eftir að Pulis yfirgaf félagið. Hann þekkir þá stöðu ágætlega en hann var einnig bráðabirgðastjóri hjá Palace eftir að Ian Holloway hætti í október á síðasta ári. Millen stýrði Bristol City á árunum 2010-2011 með litlum árangri.

David Moyes, Gianfranco Zola, Neil Warnock, Chris Houghton, Steve Clarke og Sean Dyche hafa einnig verið nefndir sem næsti knattspyrnustjóri Palace.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×