Erlent

Beittu táragasi á hóp mótmælenda

Jón Júlíus Karlsson skrifar
visir/getty
Lögreglumenn Ferguson í Missouriríki í Bandaríkjunum beittu táragasi á hóp mótmælenda sem neituðu að fara til síns heima fyrir miðnætti í gær og mótmæltu aðgerðum lögreglu sem leiddu til dauða 18 ára blökkupilts í síðustu viku. Einn er lífhættulega særður eftir átök mótmælenda og lögreglu í nótt. 

Mikil spennan hefur verið milli lögreglu og íbúa úthverfisins Ferguson í St. Louis í Missouriríki eftir að Michael Brown, 18 ára blökkupiltur, var skotinn til bana af lögreglu þann 9. ágúst síðastliðinn. Mótmæli og óeirðir hafa verið í Ferguson síðustu fimm daga og lýsti ríkisstjóri Missouri yfir neyðarástandi í St. Louis í gær. Þrátt fyrir útgöngubann tóku um 150 manns sér stöðu á aðalgötu Ferguson hverfisins og mótmæltu aðgerðum lögrelgu.

Lögreglan beitti reyksprengjum og táragasi til að tvístra hópnum sem neitaði að halda til síns heima þegar útgöngubann hófst á miðnætti. Í kjölfarið kom til átaka milli mótmælenda og lögreglu. Maður skaut úr haglabyssu á lögreglubíl og skaut lögreglan í kjölfarið á manninn sem nú liggur lífshættulega slasaður á sjúkrahúsi. Lögreglan hefur varið aðgerðir sínar og sagt þær nauðsynlega til að tryggja öryggi almennings. Sjö voru handteknir.

Ákvörðun Jay Nixons ríkisstjóra um að lýsa yfir útgöngubanni hefur verið harðlega gagnrýnd af íbúum Ferguson. Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa sagt að bannið geri illt verra og hleypi illu blóði í mótmælendur.

Rannsókn á dauða Michael Brown stendur enn yfir og hefur bandaríska alríkislögreglan aðstoðað lögregluyfirvöld í Ferguson við rannsókn málsins. Sjónarvottum ber ekki saman aðdragandann að dauða piltsins. Lögregla heldur því fram að pilturinn hafi verið skotinn eftir að til átaka kom í lögreglubíl. Vitni segja hins vegar að pilturinn hafi verið skotinn nokkrum skotum þegar hann var með hendur á höfði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×