Erlent

Tískuljósmyndir sem vísa til nauðgana umdeildar í Indlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Margir telja myndirnar óviðeigandi.
Margir telja myndirnar óviðeigandi. Mynd/Twitter
Tískuljósmyndir sem virðast vísa til nauðgunar í rútu í Indlandi hafa ollið miklum usla á samfélagsmiðlum í landinu. Mörgum þykir þær vísa til hópnauðgunar sem átti sér stað í Delhi árið 2012 og leiddi til hertra laga gegn nauðgunum.

Myndasyrpan var fyrst birt á síðunni Behance, en var síðan tekin þaðan eftir hörð mótmæli á samfélagsmiðlum. Nokkrar myndanna voru síðan birtar á síðunni Buzzfeed, þar sem rætt var við ljósmyndarann.

Myndirnar sem báru nafnið: The Wrong turn, voru teknar af ljósmyndaranum Raj Shetye og sýna ungar konur verja sig gegn hópi manna í rútu. Sjálfur segir ljósmyndarinn við BBC að myndirnar sýndu raunveruleikan fyrir konur í Indlandi og væru ekki byggðar á nauðgun konunnar sem fjölmiðlar kölluðu Nirbhaya, sem þýðir óttalaus.

Hún var 23 ára sjúkraþjálfaranemi og var nauðgað af hópi manna í rútu í Delhi í Indlandi. Nauðgunin leiddi til langra mótmæla og voru yfirvöld í Indlandi neydd til að herða lög gegn nauðgunum í landinu.

Hún lést skömmu seinna af sárum sínum.

Fjórir menn voru dæmdir til dauða fyrir ódæðið og sá fimmti, sem þá var undir lögaldri, var dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar.

Raj Shetye segist ekki hafa verið að vísa til þessa atviks sérstaklega. Heldur sé hann að varpa ljósi á nauðganir og að jafnt ríkir sem fátækir geti orðið fyrir árásum. Hann sagði myndirnar sýna raunverulega hættu kvenna í Indlandi.

Myndasyrpan hefur vakið hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum og sjá má brot af umræðunni á Twitter hér að neðan:

Mynd/Twitter



Fleiri fréttir

Sjá meira


×