Erlent

Bandaríkjamenn hvetja tælenska herinn til að láta af aðgerðum

Yingluck Shinawatra, fyrrverandi forseti Tælands.
Yingluck Shinawatra, fyrrverandi forseti Tælands. vísir/afp
Yingluck Shinawatra, fyrrverandi forseti Tælands, fjölskyldumeðlimir hennar og ýmsir háttsettir stjórnmálamenn landsins voru handtekin í gær af tælenska hernum og er talið að þau verði í haldi í allt að viku, eftir því hversu mikla ábyrgð þau bera á stjórnarkreppunni í landinu.

Eins og greint hefur verið frá í fréttum hrifsaði herinn til sín völdin í fyrradag og hefur sex af æðstu herforingjum landsins verið falið að fara með stjórn þess.

Ekki er vitað hversu margir háttsettir embættis- og stjórnmálamenn voru handteknir í aðgerðunum í gær en hátt á annað hundrað þjóðþekktum einstaklingum hefur verið bannað að yfirgefa landið án heimildar. Aðgerðirnar héldu áfram í morgun, þegar 35 til viðbótar voru boðaðir á fund hersins, meðal annars þekktir fræðimenn.

Bandaríkjamenn hafa afturkallað þriggja og hálfrar milljón dollara styrk til hersins og hvetja hann til að hætta aðgerðum sínum. Talsmaður hersins segir hins vegar nauðsynlegt að Shinawatra verði í haldi á meðan reglu sé komið á í stjórnkerfi landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×