Erlent

Fékk tæplega 24 milljarða dollara í bætur frá tóbaksfyrirtæki

Randver Kári Randversson skrifar
RJ Reynolds hefur verið dæmt til að greiða ekkju manns, sem lést úr lungnakrabbameini, tæplega 24 milljarða dollara í skaðabætur.
RJ Reynolds hefur verið dæmt til að greiða ekkju manns, sem lést úr lungnakrabbameini, tæplega 24 milljarða dollara í skaðabætur. Vísir/Getty Images
Dómstóll í Flórída-fylki í Bandaríkjunum hefur dæmt annað stærsta tóbaksfyrirtæki landsins, RJ Reynolds til að greiða ekkju manns sem lést úr lungnakrabbameini 23,6 milljarða dollara í bætur.  Þetta er hæsta upphæð sem einstaklingur hefur nokkurn tímann fengið í skaðabætur í dómsmáli í Flórída. Greint er frá málinu á vef BBC.

Cynthia Robinson höfðaði mál gegn fyrirtækinu árið 2008, þar sem hún fór fram á skaðabætur vegna andláts eiginmanns síns, sem lést árið 1996.

Lögfræðingar frú Robinson héldu því fram við réttarhöldin að RJ Reynolds hefði vanrækt að upplýsa neytendur um skaðsemi tóbaksneyslu. Vanræksla fyrirtækisins hafi leitt til dauða Micheals Johnson, eiginmanns konunnar, sem lést úr lungnakrabbameini eftir að hafa orðið háður tóbaki og hafi mistekist að hætta reykingunum þrátt fyrir margar tilraunir til þess.

Eftir að dómurinn hafði verið kveðinn upp sagðist einn lögfræðinga konunnar vona að RJ Reynolds og önnur tóbaksfyrirtæki geri sér ljóst að þau verði að hætta að stofna lífi saklauss fólks í hættu.

Talsmenn RJ Reynolds hafa lýst því yfir að dómnum verði áfrýjað til hæstaréttar í Bandaríkjunum þar sem niðurstaðan sé fullkomlega órökrétt og gangi mun lengra en það sem sanngjarnt gæti talist.

Þetta er hæsta upphæð sem einstaklingi hefur verið dæmd í skaðabætur í nokkru dómsmáli í Flórída-fylki. Mörg svipuð mál í Flórída hafa endað með greiðslu smærri upphæða til reykingamanna og aðstandenda þeirra eftir að hæstiréttur fylkisins úrskurðaði að aðeins þurfi að sýna fram á fíkn af völdum reykinga og að veikindi stafi tóbaksneyslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×